Vaxtarrými

Úr Vistkerfi nýsköpunar
Stökkva á:flakk, leita
Viðskiptahraðallinn Vaxtarrými

Vaxtarrými er viðskiptahraðall fyrir sprotafyrirtæki eða nýsköpun innan rótgróinna fyrirtækja á Norðurlandi með áherslu á sjálfbærni, mat, vatn og orku. Hraðallinn er á vegum Norðanáttar sem eru regnhlífarsamtök fyrir hringrás nýsköpunar á Norðurlandi. Vaxtarrými er fyrsta verkefni nýstofnaðra regnhlífasamtaka nýsköpunar á Norðurlandi sem heita Norðanátt. Að samtökunum koma Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Eimur, Nýsköpun í norðri, nýsköpunarmiðstöðin Hraðið og ráðgjafafyrirtækið RATA. Stuðningsaðili Vaxtarrýmis er Fallorka.


Verkefnið er byggt upp að fyrirmynd viðskiptahraðla. Í því felst að sex til átta teymi sem valin eru til þátttöku hitta reynslumikla leiðbeinendur, frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á Norðurlandi á ráðgjafafundum. Teymin sitja að auki vinnustofur og fræðslufundi og mynda sterkt tengslanet sín á milli. Hraðallinn fer að mestu fram á netinu en teymi hittast að auki fjórum sinnum á vinnustofum á Norðurlandi.

Vaxtarrými 2021

Átta nýsköpunarverkefni á norðurlandi voru valin í hraðallinn sem fer fram 4.10-26.11 2021.

  • Mýsköpun: Snýr að tilraunaræktun á smáþörungnum til að þróa og framleiða spirulina duft sem fæðubótaefni.
  • Plastgarðar: Þróa heyrúllupoka sem hægt er að nota ár eftir ár og skapa þannig hringrásarhagkerfi landbúnaðarplasts.
  • Íslandsþari: Hyggst nýta jarðhita til að vinna verðmætar afurðir úr stórþara sem vex í miklu magni við Norðurland. Verkefnið byggist á sjálfbærni, fullnýtingu og fullvinnslu hráefnisins í sátt við náttúruna.
  • Mýsilica: Framleiðir hágæða húðvörur úr náttúrulegum kísil ásamt öðrum steinefnum sem fyrirfinnast í nærumhverfinu. Fyrirtækið nýtir auðlindir sem eru í dag ónýttar og skapa þannig verðmæti.
  • Nægtarbrunnur Náttúrunnar: Nýsköpunarfyrirtæki sem hefur það að markmiði að þróa og hefja framleiðslu nýrra drykkjarvara úr staðbundnu hráefni, til dæmis grasöl og rabarbarafreyðivín.
  • Icelandic Eider: Sérhæfir sig í fullvinnslu æðardúns og þróun á útivistarvörum. Um er að ræða sjálfbærar vörur þar sem dúnninn fellur til af villtum fuglum og til hreinsunar er notast við jarðvarma af svæðinu.
  • Austan Vatna: Framleiðir Chimicurri sósur og fullvinnur kjötafurðir. Notast er við staðbundin hráefni og lögð áhersla á mikilvægi samspils náttúru og dýra.
  • Ektafiskur: Framleiðir næringarríkan saltstein fyrir búfé úr afsalti sem fellur til við söltun á fiski.

Ítarefni:

Kynningarfundur um Vaxtarrými sem haldinn var 13.09.2021.